Skilur ekki stuðningsmenn Real Madrid

Gareth Bale er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Real Madrid.
Gareth Bale er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Real Madrid. AFP

Gareth Bale, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, mun að öllum líkindum yfirgefa spænska félagið í sumar en Zinedine Zidane, stjóri Real Madrid, vill losna við leikmanninn. Bale hefur verið mikið meiddur síðan hann kom til félagsins frá Tottenham árið 2013 en hann er á meðal launahæstu leikmanna liðsins. 

Stuðningsmenn Real Madrid virðast einnig vera búnir að missa þolinmæðina gagnvart leikmanninum og hafa þeir verið duglegir að baula á hann, undanfarin tvö tímabil. „Pressan hjá Real Madrid er mikil og ef þú stendur þig ekki á vellinum þá færðu að heyra það,“ sagði Bale í samtali við hlaðvarpsþáttinn The Erik Anders Lang Show.

„Það hafa 80.000 manns á pöllunum tekið sig til og baulað á mig vegna þessa að ég er ekki að standa mig nægilega vel. Það hefur gerst nokkrum sinnum og það er ekki sérstök tilfinning. Það hjálpar ekki heldur með sjálfstraustið og ég skil ekki stuðningsmenn sem standa ekki þétt við bakið á sínu liði,“ bætti Bale við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert