Sextán liða úrslitin blasa við Walesbúum

Aaron Ramsey skorar fyrir Walesbúa gegn Tyrkjum í Bakú í …
Aaron Ramsey skorar fyrir Walesbúa gegn Tyrkjum í Bakú í dag. AFP

Walesbúar eru komnir með annan fótinn í sextán liða úrslit Evrópukeppni karla í fótbolta eftir sigur á Tyrkjum, 2:0, í A-riðli keppninnar í Bakú í Aserbaídsjan í dag.

Þeir eru komnir með 4 stig eftir tvo leiki en Tyrkir sitja eftir án stiga eftir tvo leiki og verða að vinna Sviss í lokaumferðinni til að eiga einhverja möguleika á að komast áfram úr riðlakeppninni.

Walesbúar eiga eftir að mæta Ítölum í lokaumferðinni en Ítalir mæta Svisslendingum í seinni leik annarar umferðarinnar klukkan 19 í kvöld.

Aaron Ramsey kom Walesbúum yfir á 43. mínútu leiksins þegar hann fékk glæsilega sendingu frá Gareth Bale innfyrir miðja vörn Tyrkja og skoraði laglega, 1:0.

Gareth Bale horfir á eftir boltanum hátt yfir þverslá tyrkneska …
Gareth Bale horfir á eftir boltanum hátt yfir þverslá tyrkneska marksins þegar hann hefði getað bætt við marki úr vítaspyrnu. AFP

Walesbúar fengu dauðafæri til að bæta við forskotið á 61. mínútu þegar brotið var á Bale og dæmt var vítaspyrna. Hann fór sjálfur á vítapunktinn en skaut hátt yfir  tyrkneska markið. Fyrsta vítaspyrnan sem hann skorar ekki úr frá árinu 2010.

Walesbúar héldu út það sem eftir var og litlu munaði að bæði Harry Wilson og Bale næðu að bæta við öðru marki þeirra í uppbótartíma leiksins en Wilson kom inn á sem varamaður fyrir Ramsey skömmu áður.

Connor Roberts skoraði hinsvegar annað markið á fimmtu mínútu uppbótartímans og innsiglaði glæsilegan sigur Walesbúa, 2:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert