Sjöunda stoðsendingin í góðum sigri

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, lét til sín taka sem fyrr þegar lið hennar Bayer Leverkusen vann góðan sigur á Ingibjörgu Sigurðardóttur og liðsfélögum í Duisburg, 3:1, í þýsku 1. deildinni í dag.

Leverkusen er í sjötta sæti með 31 stig þegar ein umferð er óleikin á meðan Duisburg er á botninum með aðeins fjögur stig og er fyrir margt löngu fallið niður í B-deild.

Karólína Lea lék fyrstu 62 mínúturnar fyrir Leverkusen í dag og lagði upp annað mark liðsins þegar liðið komst í 2:0.

Hún hefur nú gefið sjö stoðsendingar í 21 deildarleik á tímabilinu og hefur auk þess skorað fimm mörk.

Ingibjörg var allan tímann á varamannabekknum hjá Duisburg að þessu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert