McLaren hrósar framlagi Alonso

Alonso á ferð í kappakstrinum í Sepang.
Alonso á ferð í kappakstrinum í Sepang. mbl.is/mclarenf1

Fernando Alonso á miklar þakkir skildar fyrir að gera McLaren aftur að sigurliði í formúlu-1, segir framkvæmdastjóri liðsins, en Lewis Hamilton stal öðru sinni í röð sviðsljósinu frá heimsmeistaranum með frammistöðu sinni í Malasíukappakstrinum.

Martin Whitmarsh segir að þótt nýliðinn Hamilton, sem tók m.a. fram úr Ferrariþórunum Felipe Massa og Kimi Räikkönen í fyrstu beygju í Sepang, hafi slegið í gegn í fyrstu tveimur mótunum, sé rangt að líta framhjá því sem Alonso hefur gert.

„Fyrsti hringur Lewis var undraverður og ræsingin frábær hjá honum. Svo var það spennandi hvernig hann tókst á við Massa. Eftir mistök Massa hélt ég að Lewis stæði frammi fyrir meiri vanda þar sem Kimi var kominn í skottið. En hann afgreiddi það einnig vel, sem var stórkostlegt.

Óhjákvæmilega verður mikil og réttlætanleg hrifning vegna Lewis, en Fernando afgreiddi málin eins og heimsmeistari. Skarpa og beitta drápsvélin fór af stað og vann sitt verk,“ segir Whitmarsh.

Hann segir að koma Alonso til McLaren hafi átt verulegan þátt í að liðið er aftur á sigurbraut, en það vann engan kappakstur í fyrra en slíkt hafði ekki gerst á neinni vertíð frá 1996.

„Framlag hans hefur verið stórkostleg. Fernando er mikilfenglegur heimsmeistari og afar reynslumikill náungi. Hann hefur veitt okkur mikla innsýn í hlutina. Hann virkar afar hvetjandi innan liðsins. Hann hugsar stöðugt um starfið sitt og okkar allra hinna. Hann stóð sig afar vel í Malasíu,“ segir Whitmarsh einnig.

Alonso ekur út úr bílskúr McLaren í Sepang.
Alonso ekur út úr bílskúr McLaren í Sepang. ap
Lewis í humátt á eftir Alonso í keppninni í Sepang.
Lewis í humátt á eftir Alonso í keppninni í Sepang. mbl.is/mclarenf1
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert