Litmanen og Hyypiä fara fyrir liði Finna

Jari Litmanen og Sami Hyypiä eru lykilmenn finnska landsliðsins sem tekur á móti Íslendingum í Vantaa í dag. Þeir eru þekktustu knattspyrnumennirnir í sögu Finnlands, þeir einu sem kjörnir hafa verið íþróttamenn ársins í "þúsund vatna landinu" sem er kunnara fyrir snjalla langhlaupara, skíðagöngumenn og íshokkíspilara en fyrir afrek sín á knattspyrnusviðinu.

Finnar hafa þó sótt sig mjög á undanförnum árum og náð góðum úrslitum í stórmótum upp á síðkastið. Þeir gerðu m.a. jafntefli við Þjóðverja fyrir hálfu öðru ári og sáu til þess að þeir þyrftu að fara í umspil um sæti í lokakeppni HM. Finnar eru þó ekki ánægðir með gengi sitt í undankeppni EM til þessa þar sem þeir hafa tapað 2:0 fyrir Wales, 2:0 fyrir Ítalíu og 2:0 fyrir Serbíu-Svartfjallalandi en sigrað Aserbaídsjan, 3:0.

Jari Litmanen, sem skoraði fyrir Ajax í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku og aftur í hollensku deildakeppninni um helgina, er 32 ára og nánast í guðatölu í heimalandi sínu en hann hefur m.a. leikið með Barcelona og Liverpool við góðan orðstír. Hann er fyrirliði landsliðsins og hefur spilað 81 landsleik þar sem hann hefur gert 21 mark.

Sami Hyypiä, hinn 29 ára gamli miðvörður og fyrirliði Liverpool, hefur fest sig í sessi sem einn besti varnarmaðurinn í ensku knattspyrnunni undanfarin ár en hann er annar leikjahæsti leikmaður finnska liðsins í dag með 51 landsleik. Næstir þeim að reynslu koma Jonatan Johansson, sóknarmaður frá Charlton í Englandi, sem hefur spilað 48 landsleiki og skorað 9 mörk, og Joonas Kolkka, miðjumaður frá Panathinaikos í Grikklandi, sem er með 46 landsleiki og 9 mörk.

Fimm af fastamönnum finnska liðsins spila ekki með í dag. Það eru markvörðurinn Antti Niemi frá Southampton, Hannu Tihinen, varnarmaður frá Anderlecht, Petri Pasanen, varnarmaður frá Ajax, Aki Riihilahti, miðjumaður frá Crystal Palace, og Teemu Tainio, sóknarmaður frá Auxerre.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert