Þjálfari Færeyinga: "Við leggjumst ekki í vörn"

"Þetta verður erfiður leikur, þar sem Íslendingar eru á heimavelli og verða að vinna, það er eflaust pressa frá almenningi og í fjölmiðlum en við viljum líka vinna svo þetta verður spennandi leikur," sagði Henrik Larsen, þjálfari færeyska landsliðsins, eftir æfingu í gær.

Larsen tók við af Dananum Allan Simonsen í júlí í fyrra og kom með aðrar áherslur. "Þegar Allan stjórnaði liðinu voru fimm í vörn, þrír á miðjunni og tveir frammi en núna eru fjórir í vörninni og það breytir miklu. Við höfðum ekki sömu hugmyndir um hvernig á að leika knattspyrnu og það eru alltaf breytingar þegar nýr maður tekur við, nýjar áherslur og nýjar hugmyndir. Við höfum séð árangur á milli leikja, höfum fært okkur framar á völlinn og það er mikilvægt. Við höfum líka skorað mikið af mörkum - í öllum leikjum nema einum. Ég tel ekki hægt að verjast í níutíu mínútur með fimm menn í öftustu línu, þá tapar maður hvort sem er svo ég sagði við mína menn að við yrðum að leika knattspyrnu. Auðvitað verður að hafa vörnina á hreinu en ég tel að við séum að sækja meira en áður."

Aðspurður sagðist þjálfarinn ekki vita mikið um hvernig nýi íslenski landsliðsþjálfarinn ætlaði að leggja upp leikinn en bjóst ekki við miklum breytingum. "Það eru alltaf breytingar frá einum leik til annars. Ég hef séð upptökur af fyrri leikjum Íslands áður en skipt var um þjálfara og enginn leikur er eins. Ég á því ekki von á miklum breytingum því í lokin er það alltaf betra liðið sem vinnur en eins og ég sagði eru alltaf breytingar með nýjum mönnum og við verðum að búa okkur undir það. Ég veit ekki hvernig þeir leggja leikinn upp núna en hef séð þá leika 5-3-2 og 4-3-3 svo að mér kemur ekkert á óvart," bætti Henrik við og taldi ummæli Ásgeirs Sigurvinssonar um hve tap fyrir Færeyjum væri mikið áfall ekki hafa mikil áhrif á lið sitt. "Það gat skapað vanda því Færeyingar eru fámenn þjóð miðað við Ísland en í knattspyrnu skiptir það ekki máli. Við töpuðum naumlega í Þýskalandi svo að allt getur gerst og við stefnum sannarlega á sigur. Það var hægt að nota þessi ummæli til að hvetja liðið en þegar upp er staðið fara úrslit eftir því hvort liðið er betur stemmt þann daginn. Ef við ætlum að vinna verða allir leikmenn að ná fram sínu besta, ef það vantar nokkra verður erfitt að vinna. Ef við lítum á íslenska liðið gæti Eiður Smári Guðjohnsen unnið leikinn fyrir það en við erum ekki með svona leikmann. Það hefur einnig mikil áhrif þegar flestir leikmenn eru að spila með stóru liðunum í Evrópu allt árið en hjá okkur eru flestir aðeins að keppa yfir sumarið. Íslenska liðið er líkamlega sterkara og vanara grasi en við spilum að mestu á gervigrasi og því verðum við að venjast."

Engu að síður er þjálfari Færeyinga bjartsýnn. "Ég er alltaf bjartsýnn og reyni alltaf að finna leikmenn og leið til að sigra, annars gengur ekki að taka þátt í leiknum og betra að snúa sér að einhverju öðru. Við gerðum þau mistök í leiknum við Litháen að vera með hugann um of við næsta leik, sem var við Þýskaland. Nú er annað upp á teningnum, við erum að leika við stóra bróður á Íslandi og nú munum við einbeita okkur að því. Við unnum tvo leiki gegn Kasakstan í síðastliðnum mánuði svo að við erum með ágætt sjálfstraust, sem er gott."

Eftir Stefán Stefánsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert