Keflvíkingar komnir áfram, mæta Madeira í kvöld í leik um annað sætið

Keflvíkingar mæta Madeira í kvöld.
Keflvíkingar mæta Madeira í kvöld. mbl.is

Keflvíkingar eru öruggir áfram í Bikarkeppni Evrópu í körfuknattleik karla, en liðið mætir Madeira í kvöld í síðasta leik riðilsins. Keflavík vann fyrri leikinn 114:101 í Keflavík og má því tapa með allt að þrettán stigum til að ná öðru sætinu í riðlinum.
Keppnin er þannig að þremur riðlum er raðað saman þannig að tvö efstu liðin í hverjum þeirra komast áfram og síðan tvö þeirra sem í þriðja sæti eru sem eru með bestan árangur. Keppni í hinum riðlunum tveimur lauk í gærkvöldi og það er ljóst að í riðli Keflvíkinga kemst Bakken Bears frá Danmörku áfram ásamt Keflvíkingum þar sem þeir geta ekki fengið færri en 9 stig í riðlinum þótt þeir tapi með miklum mun. Ef Madeira vinnur kemst lið þeirra líka áfram, sama hvort þeir vinna stórt eða ekki. Þá verður bæði Madeira og Keflavík með 9 stig og það dugar til að komast áfram.
Vinni Keflvíkingar í kvöld verður Madeira með 8 stig eins og Reims, sem yrði fyrir ofan á betri úrslitum úr innbyrðisleikjum liðanna.
Í hinum riðlunum kemst Decin frá Tékklandi áfram með 12 stig úr B-riðli ásamt Mlekarna, sem einnig er frá Tékklandi, og Benetton Friborg Olympic frá Sviss, en þau eru bæði með 9 stig. Í C-riðli komast Albacomb frá Ungverjalandi áfram með 11 stig og Boncourt frá Sviss með 9 stig. Liðin sem eru í þriðja sæti þarna sitja eftir með átta stig.
Það verða sem sagt 24 lið sem komast áfram, átta í hvern milliriðil og verður leikið heima og að heiman 13. og 20. janúar á næsta ári með útsláttarfyrirkomulagi.
Liðunum er nú raðað eftir árangri og þá eru tveir möguleikar í stöðunni fyrir Keflvíkinga. Ef þeir tapa fyrir Madeira með meira en 13 stigum verða Keflvíkingar fyrra liðið af tveimur sem kemur inn í keppnina úr þriðja sæti riðlakeppninnar og enda því í sjöunda sæti og mæta þá Albacomb frá Ungverjalandi í næstu umferð. Tapi Keflvíkingar með minna en 13 stigum, eða vinna þá enda þeir í öðru sæti riðilsins og eru með besta skor allra liða í öðru sæti þannig að þeim yrði raðað í fjórða sæti í milliriðlunum og mæta þá Mlekarna frá Tékklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert