Ásdís best hjá Ármanni

Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Ásdís Hjálmsdóttir og Snorri Þorvaldsson, formaður Ármanns.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Ásdís Hjálmsdóttir og Snorri Þorvaldsson, formaður Ármanns. Ljósmynd/Ámann

Ásdís Hjálmsdóttir, Íslandsmethafi í spjótkasti kvenna, er íþróttamaður Ármanns fyrir nýliðið ár en kjörið fór fram í 121 árs afmæli félagsins á dögunum. Við sama tækifæri var frjálsíþróttakonan Helga Margrét Þorsteinsdóttir valin efnilegasti íþróttamaður Ármenninga. 

Ásdís var lok árs fremst í flokki íslenskra frjálsíþróttamanna samkvæmt afrekslista Alþjóða frjálsíþróttasambandsins. Hún er í 22. sæti á heimslista í spjótkasti. Hún er í 16. sæti Evrópu í sinni grein og fremst spjótkastkvenna á Norðurlöndum. 

Helga Margrét er 18 ára gömul og er ein efnilegasta sjöþrautarkona heims um þessar mundir. Þetta endurspeglast annars vegar í stöðu hennar á heimslista Alþjóða frjálsíþróttasambandsins, þar sem hún trónir á toppi sem og af nýfengnu boði hennar til keppni í Götzis í Austurríki á komandi vori. Til Götzis er aðeins boðið bestu íþróttamönnum heims, þeim sem náð hafa yfir 6.000 stigum í sjöþraut kvenna. Nú gerir mótshaldari undantekningu vegna einstaklega efnilegrar íþróttakonu, Helgu Margrétar.

Á samkomunni var úthlutað rúmri einni milljón króna úr afrekssjóði Ármanns. Sjóðurinn var stofnaður á síðasta ári og var veitt 1.050.000 krónur úr honum að þessu sinni. Í ár voru það 16 styrkir sem voru afhentir besta íþróttafólki félagsins, 15 einstaklingum og einu liði. Styrkirnir voru frá 20.000 krónum á mann og mest 100.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert