Lochte náði að sigra Phelps

Michael Phelps og Ryan Lochte ræða málin eftir sundið í …
Michael Phelps og Ryan Lochte ræða málin eftir sundið í nótt. AFP

Sigursælasti sundmaður heims, Michael Phelps, mátti sætta sig við annað sætið í úrslitunum í 100 metra flugsundinu á Grand Prix mótinu í Mesa í Arizona í nótt en þar tapaði hann naumlega fyrir sínum gamla keppinauti Ryan Lochte.

Phelps, sem keppti í fyrsta sinn síðan á Ólympíuleikunum í London 2012, náði bestum tíma í undanrásunum en í úrslitasundinu tókst Lochte að hafa betur, synti á 51,93 sekúndum en Phelps á 52,13. Heimsmetið hjá Phelps í greininni er 49,82 sekúndur og fimm ára gamalt.

Lochte, sem náði að vinna Phelps í 400 metra fjórsundi í London, var því 2/10 á sekúndum á undan.

„Ég er aldrei sáttur við að tapa en ég gerði það sem ég stefndi á. Ég ætlaði að vera í kringum 52 sekúndurnar. Fyrir utan líklega versta snúning minn á ferlinum gekk þetta bara ansi vel og var stórskemmtilegt," sagði Phelps við fréttamenn eftir sundið en hann á ennþá heimsmetið í þremur greinum.

Hann útilokar ekki að setja stefnuna á Ólympíuleikana í Ríó árið 2016 en vildi ekki horfa of langt fram í tímann, og ekki heldur Bob Bowman þjálfari hans. „Ég er bara ánægður með að hann komst í gegnum þetta mót. Hann er búinn að tryggja sér keppnisrétt á meistaramótinu og tækifærið er fyrir hendi ef hann vill nýta sér það," sagði Bowman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert