Anton með Íslandsmet og ÓL-lágmark á HM í Kazan

Anton Sveinn McKee
Anton Sveinn McKee mbl.is/Golli

Anton Sveinn McKee setti Íslandsmet í fyrstu grein sinni á heimsmeistaramótinu í sundi í Kazan í Rússlandi í morgun en bæði hann og Hrafnhildur Lúthersdóttir voru nálægt því að komast áfram í undanúrslitin.

Anton keppti í 100 metra bringusundi og hafnaði þar í 19. sæti af 81 keppanda á 1:00,53 mínútu en hann var aðeins 18/100 úr sekúndu frá sextánda sætinu sem hefði tryggt honum keppnisrétt í undanúrslitunum síðar í dag. Hann sló met Jakobs Jóhanns Sveinssonar sem var 1:01,32 mínúta.

Með þessu náði Anton jafnframt Ólympíulágmarkinu fyrir leikana í Ríó á næsta ári.

Hrafnhildur keppti í 200 metra fjórsundi og hafnaði þar í 20. sæti af 39 keppendum á 2:14,12 mínútum og var 71/100 úr sekúndu frá sextánda sætinu sem hefði tryggt henni sæti í undanúrslitunum. Hrafnhildur á Íslandsmetið í greininni, 2:13,83 mínútur, sem hún setti á Smáþjóðaleikunum fyrr í sumar.

Þá keppti Jóhanna Gerða Gústafsdóttir í 100 metra flugsundi í morgun og hafnaði í 43. sæti af 70 keppendum á 1:02,43 mínútu. Íslandsmet Söru Blake Bateman í greininni er 59,87 sekúndur en það setti hún á ÓL í London árið 2012.

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert