Djokovic hefur slegið slöku við

Novak Djokovic.
Novak Djokovic. AFP

Boris Becker, fyrrverandi þjálfari serbnesku tennisstjörnunnar Novak Djokovic, segir að kappinn verði að leggja harðar að sér við æfingar en hann hefur gert undanfarna mánuði. Í gær var tilkynnt að Becker og Djokovic hafi slitið samstarfi en Becker hefur þjálfað Serbann síðustu þrjú árin. 

Hann segir Djokovic hafa slegið slöku við síðasta hálfa árið og það sé skýringin á að hann hafi fallið úr efsta sæti heimslistans og fallið óvænt og snemma úr keppni á mótum í sumar og í haust. 

„Árangur verður ekki til upp úr engu. Hann verður bara til með ósérhlífni og þrotlausum æfingum á hverjum degi,“ sagði Becker í samtali við þýska fjölmiðla í dag. „Djokovic hefur slegið slöku við æfingar síðasta hálfa árið. Hann veit það manna best sjálfur,“ sagði Becker og bætti við að ákvörðunin um samstarfsslitin hafi átt sér nokkurn aðdraganda. Ekki hafi verið um skyndiákvörðun að ræða af þeirra hálfu. 

Becker sagði enn fremur að hann hefði fulla trú á að Serbinn gæti náð fyrri styrk á tennisvellinum. En til þess þyrfti hann að bíta í skjaldarrendur og æfa af meiri dugnaði en síðustu mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka