„Get ekki verið annað en sáttur“

Helgi Sveinsson með verðlaun sín á Hótel Sögu í gær …
Helgi Sveinsson með verðlaun sín á Hótel Sögu í gær ásamt Sveini Áka Lúðvíkssyni formanni ÍF. mbl.is/Ófeigur

Spjótkastarinn Helgi Sveinsson var í gær valinn Íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra í þriðja sinn á fjórum árum. 

„Ég get ekki verið annað en sáttur við hvernig spilaðist úr árinu 2016 hjá mér, þótt ég hafi ekki verið það strax eftir Ólympíumótið í Ríó. Eftir að hafa skoðað árið í heild sinni er ég sáttur,“ sagði Helgi þegar mbl.is ræddi við hann en hann varð Evrópumeistari á árinu og setti ólympíumótsmet í sínum fötlunarflokki.

Á næsta ári verður HM í frjálsum haldið á Ólympíuleikvanginum í London en þar hófst nánast ferill Helga í spjótinu árið 2012. „Ég hef verið að undirbúa það og er að skipuleggja æfingaplan fyrir HM. En ég geri ráð fyrir því að æfa bæði kvölds og morgna líkt og ég gerði á þessu ári til að standa mig eins vel og ég get,“ sagði Helgi ennfremur við mbl.is en hann tók sér nánast ekkert frí eftir Ólympíumótið í Ríó. „Ég var mættur á æfingu þremur dögum eftir að ég kom heim til að ná úr mér fluginu og koma skrokknum í samt lag aftur. Ég hef bara svo gaman að þessu og verð frekar pirraður ef ég sleppi æfingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert