Landsmet sett í boðsundi

Boðsveitin sem synti í dag. Sveitin setti nýtt landsmet.
Boðsveitin sem synti í dag. Sveitin setti nýtt landsmet. Sundsamband Íslands

Íslenska boðsundsveitin setti nýtt landsmet er hún keppti í 4 x 50 m fjórsundi á HM í 25 m laug í Kanada í dag. Davíð Hildeberg Aðalsteinsson, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Aron Örn Stefánsson og Bryndís Rún Hansen skipa sveitina.

Sveitin var í fimmta sæti í sínum riðli og hafnaði í 16. sæti af 31 sæti. Sveitin synti á tímanum 1:43,84 en það er nýtt landsmet.

Fyrra landsmetið var sett á HM í 25 m laug í Doha fyrir tveimur árum en þá fór sveitin á tímanum 1:46,56. Eygló Ósk Gústafsdóttir, Hrafnhildur, Davíð og Daníel Hannes Pálsson skipuðu þá sveitina.

Tíminn sem sveitin þurfti að ná í dag til þess að komast í úrslit var 1:40,49.

Viktor Máni Vilbergsson úr SH varð í 32. sæti í 200 metra bringusundi á 2:14,52 mínútum. Til þess að komast í úrslit þurfti að synda á 2:04,93 mínútum, en ekki eru undanúrslit í greininni. Íslandsmet Jakobs Jóhanns Sveinssonar er 2:07,75 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert