Hafa áfrýjað dómunum

Steindór Ingason, til vinstri á mynd, er annar þeirra sem …
Steindór Ingason, til vinstri á mynd, er annar þeirra sem dæmdir voru í fjögurra ára keppnisbann. mbl.is/Golli

Íshokkímennirnir Björn Róbert Sigurðarson og Steindór Ingason, sem hlutu þyngsta mögulega dóm hjá dómstól ÍSÍ vegna ólöglegrar lyfjanotkunar, hafa áfrýjað dómnum til áfrýjunardómstóls ÍSÍ.

Björn Róbert og Steindór voru dæmdir í fjögurra ára keppnisbann frá 6. september á þessu ári, en þeir urðu uppvísir að steranotkun. Lyfjaeftirlit ÍSÍ tók þá í lyfjapróf á æfingu UMFK Esju í haust.

Landsliðsmennirnir tveir játuðu brot sitt skilyrðislaust en fóru fram á sýknu eða til vara vægustu refsingu, meðal annars vegna þess að lyfið hafi verið innbyrt utan æfinga- og keppnistímabils og vegna þess að tilgangur notkunarinnar hafi verið að skera niður líkamsfitu vegna fyrirhugaðrar sólarlandaferðar en ekki til að bæta árangur á vellinum.

Ekki er ljóst hvenær áfrýjunardómstóll tekur málið fyrir en vonast er til þess að niðurstaða liggi fyrir í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert