Jacky Pellerin hættur hjá Ægi

Jacky Pellerin.
Jacky Pellerin. Ljósmynd/Arnaldur Halldórsson

Sundþjálfarinn Jacky Pellerin er hættur störfum hjá Sundfélaginu Ægi í Reykjavík en hann hefur verið yfirþjálfari þar allt frá árinu 2007.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ægi á Facebook. Pellerin tilkynnti sundfólki félagsins að Íslandsmeistaramótinu loknu í gærkvöld að þetta hafi verið hans síðasta stórmót sem yfirþjálfari félagsins.

Pellerin var einnig landsliðsþjálfari Íslands í sundi um árabil, m.a. í aðdraganda Ólympíuleikanna 2016.

Tilkynningin frá Ægi hljóðar þannig:

Jacky hættir sem Yfirþjálfari Ægis
Að loknu Íslandsmeistaramóti í dag tilkynnti Jacky Pellerin sundmönnum Ægis að þetta hafi verið hans síðasta stórmót sem yfirþjálfari félagsins og að hann muni láta af störfum eftir yfirstandandi sundár.
Jacky hefur starfað sem yfirþjálfari sundfélagsins Ægis frá árinu 2007 og þjálfað marga af helstu afreksmönnum þess. Hann skilar góðu búi og er gaman að geta þess að Ægir sótti fjölda íslandsmeistaratitla um helgina og verðlaun. 
Stjórn Ægis þakkar Jacky gott samstarf á liðnum árum og óskar honum alls góðs á nýjum vettvangi.
Boðið verður upp á fund fyrir sundmenn og aðstandendur þeirra á morgun klukkan 18:00 á efri hæð Laugardalslaugar með stjórn félagsins og þjálfurum.
Stjórnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert