Allir Íslendingarnir í úrslit

Sonja Sigurðardóttir varð fimmta í undanrásum í 50 m baksundi …
Sonja Sigurðardóttir varð fimmta í undanrásum í 50 m baksundi S4 áðan og syndir í úrslitum í kvöld. Ljósmynd/Jón Björn

Allir þrír íslensku sundmennirnir tryggðu sér sæti í úrslitum Evrópumeistaramótsins í Dublin en það voru þau Thelma Björg Björnsdóttir, Róbert Ísak Jónsson og Sonja Sigurðardóttir.

Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, varð áttunda inn í úrslit í 100 m skriðsundi S6 (hreyfihamlaðir) þegar hún synti á tímanum 1:24.08 mín. en Íslandsmet hennar í greininni er 1:23.22 mín. Yelyzveta Mereshko frá Úkraínu átti besta tímann í undanrásum en hún synti á 1:13.13 mín. en heimsmetið í greininni er 1:11.40 mín. og er í eigu Mereshko frá því á Paralympics í Ríó 2016.

Róbert Ísak Jónsson, Firði, verður einnig í úrslitum í kvöld í 200 m fjórsundi S14 (þroskahamlaðir) en hann átti annan besta tímann í undanrásum þegar hann kom í bakkann á 2:17.12 mín., en besta tíma undanrásanna átti Hollendingurinn Marc Evers á 2:14.41 mín. en heimsmetið í greininni á Rússinn Viacheslav Emeliantsev með tímann 2:08.98 mín. en það met hefur staðið frá árinu 2015.

Sonja Sigurðardóttir, ÍFR, varð fimmta í undanrásum í baksundi S4 (hreyfihamlaðir) áðan en hún synti þá á 1:03.81 mín. en Íslandsmet hennar í greininni er 59.97 sek. en metið setti Sonja á Paralympics í Ríó 2016. Hin úkraínska Maryna Verbova átti besta tímann í undanrásum eða 52.36 mín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert