Goðsögn finnur hlandlykt á keppnisstaðnum

Ronnie O'Sullivan
Ronnie O'Sullivan AFP

Ekki verður sagt að goðsögnin Ronnie O'Sullivan sé ánægður með mótshaldarana á Enska meistaramótinu í snóker sem nú fer fram í Sussex. Sparar kempan síst stóru orðin. 

O'Sullivan á titil að verja í mótinu og fór í gegnum fyrstu umferðina með því að sigra Kurt Maflin nokkuð örugglega. 

Í viðtölum eftir viðureignina barst talið að aðstæðum í K2 Leisure Centre þar sem mótið er haldið. Sagði hann aðstæður vera með þeim verstu sem hann hefði upplifað á löngum ferli og keppnisstaðurinn drægi úr áhuga manna á því að keppa. 

„Ég veit ekki hvað er í gangi en ég er að koma úr viðtali við fjölmiðla og finn ekkert nema hlandlykt,“ sagði O'Sullivan meðal annars. 

Alþjóðasnókersambandið segir hins vegar viðbrögð annarra keppanda hafa verið jákvæð í langflestum tilfellum. 

Ronnie O'Sullivan er 42 ára Englendingur og álitinn vera einn allra besti snókerspilari sögunnar. Er hann fimmfaldur heimsmeistari og sigraði síðast árið 2013. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert