Veit að við toppum í vikunni

Jónas Valgeirsson, einn þjálfara stúlknalandsliðsins í hópfimleikum, og Hekla Björt …
Jónas Valgeirsson, einn þjálfara stúlknalandsliðsins í hópfimleikum, og Hekla Björt Birkisdóttir, fyrirliði stúlknalandsliðsins. Ljósmynd/Kristinn Arason

„Stelpurnar hafa staðið sig afar vel í gegnum allt æfingaferlið og ég veit að við toppum í þessari viku,“ sagði Jónas Valgeirsson, einn þjálfara íslenska stúlknalandsliðsins í hópfimleikum, þegar mbl.is hitti hann að máli fyrir síðustu æfingu liðsins í keppnishöllinni í Odivelas í Lissabon í dag.

Stúlknalandsliðið tekur þátt í undankeppninni síðdegis á morgun og verður í keppni við 10 önnur lið um sex sæti í úrslitum sem fram fara á föstudaginn. 

„Það hefur verið góður stígandi á undirbúningstímanum sem er afar jákvætt,“ sagði Jónas sem vill sem minnst bera saman stúlknaliðið nú og það sem varð Evrópumeistari fyrir tveimur árum. „Það er bara eins og gengur í unglingaflokkum, allt annað lið. Við erum líka að keppa á móti allt öðru nú en þá. Þar af leiðandi erum við ekkert  að pæla í hvað gerðist fyrir tveimur árum. Það er liðin tíð,“ sagði Jónas ákveðinn. „Við hugsum um okkur í núinu og um að gera okkar allra besta. Fram undan er undankeppnin og við stefnum að sjálfsögðu í úrslitin.“

Jónas sagði styrkleika liðsins vera fyrst og síðast samheldnina í hópnum. „Í liðinu eru tólf hrikalega flottar stelpur sem eru góðar vinkonur en sem keppnislið er liðið sterkast i dýnustökkum og eins í dansi,“ sagði Jónas sem reiknar með mikilli keppni frá Svíum sem alltaf eru með lið í allra fremstu röð. „Eins reikna ég með að Danir geti komið á óvart. Dönsk félagslið eru afar góð í unglingaflokki um þessar mundir eins og sást vel á Norðurlandamóti unglinga í vor. En við erum líka með sterkt lið og það skiptir fyrst og síðast máli,“ sagði Jónas Valgeirsson, einn þriggja þjálfara stúlknalandsliðsins í hópfimleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert