Ætla mér að ná Íslandsmetinu

Guðbjörg Jóna eftir hlaupið í dag.
Guðbjörg Jóna eftir hlaupið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kom fyrst í mark í 200 metra hlaupi á Stórmóti ÍR í Laugardalshöll í dag. Hún hljóp á 24,09 sekúndum, sem er hennar besti tími innanhúss. Hún var 0,3 sekúndum frá Íslandsmeti Silju Úlfarsdóttur.

Guðbjörg er ánægð með byrjunina á árinu, en hún viðurkenndi í samtali við mbl.is eftir hlaupið, að hún hefði vonast til að slá Íslandsmet Silju. 

„Þetta ár byrjar mjög vel en það eru margir hlutir sem ég get enn bætt. Núna get ég miðað út frá þessu móti fyrir næstu mót og reynt að bæta það sem bæta þarf.

Núna ætla ég að einbeita mér að því að ná Íslandsmetinu í 200 metrunum inni. Ég hélt að Íslandsmetið myndi koma núna, en þetta er fyrsta mót ársins, svo það skiptir ekki öllu máli. Þetta er fínn tími til að byrja með og það er mikið sem ég get bætt," sagði Guðbjörg, en hvað er það sem hún getur helst bætt? 

„Ég var góð í byrjun en ég þarf að halda stílnum út hlaupið og vera róleg.“ Guðbjörg lá á hlaupabrautinni í nokkra stund eftir hlaupið, en hún stífnaði upp í lok þess. 

„Fóturinn á mér stífnaði aðeins upp og ég datt næstum í endann. Ég var ekki búin á því, en þetta kemur stundum fyrir.“

Mjög bjartsýn fyrir næsta sumar

Guðbjörg átti algjört draumaár í fyrra og vann til fjölmargra verðlauna. Hún varð m.a. Íslandsmeistari fullorðinna, Evrópumeistari 18 ára og yngri og ólympíumeistari ungmenna. Hún ætlar sér enn stærri hluti á nýju ári. 

„Ég ætla að ná inn á flest mót og ætla að bæta mig á þeim. Vonandi næ ég í úrslit á EM U20 og þá er ég sátt. Ég ætla mér að ná betri tímum bæði í 200 og 100 metrunum. Ég er að vinna að startinu og ég er að verða mikið betri í því. Ég er mjög bjartsýn fyrir næsta sumar. Þetta innanhústímabil er svolítið til að æfa sig í að keppa og koma sér í form,“ sagði Guðbjörg. 

Þórdís Eva Steinsdóttir varð önnur á tímanum 24,59 sekúndum og Glódís Edda Þuríðardóttir þriðja á 25,35 sekúndum. 

Jóhann Björn Sigurbjörnsson kom fyrstur í mark í 200 metra hlaupi karla á 22,08 sekúndum. Einar Már Óskarsson varð annar og Hinrik Snær Steinsson þriðji. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert