Aníta fyrst á nýju mótsmeti

Aníta Hinriksdóttir tók forystuna strax í byrjun.
Aníta Hinriksdóttir tók forystuna strax í byrjun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aníta Hinriksdóttir var með mikla yfirburði í 800 metra hlaupi kvenna á Stórmóti ÍR í Laugardalshöll í dag. Hún hljóp á 2:05,98 mínútum og setti í leiðinni mótsmet. Aníta á best 2:01,18 mínútur innanhúss. 

„Þetta er fyrsta hlaup ársins og mér leið ágætlega á fyrsta hring, þangað til ég sá hvað hlaupið var hægt. En svo hugsaði ég að þetta væru fjórir hringir og ég vildi klára þetta með sóma. Þetta var ekki góður tími,“ sagði Aníta um hlaupið í samtali við mbl.is. 

Sæmundur Ólafsson var fremstur í flokki í 800 metra hlaupi karla. hann hljóp á 1:53,72 mínútum og Daði Arnarson varð annar á 1:56,38 mínútum. Hugi Harðarson kom þar á eftir á 1:59,11 mínútum. 

Íslandsmethafinn Hafdís Sigurðardóttir var með yfirburði í langstökki. Hún stökk 6,49 metra sem er mótsmet. María Rún Gunnlaugsdóttir kom þar á eftir með 5,71 metra. Kristinn Torfason vann greinina í karlaflokki með stökk upp á 7,18 metra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert