Guðmundur setti vallarmet í Keili

Guðmundur Ágúst lék vel í dag.
Guðmundur Ágúst lék vel í dag. Ljósmynd/Golf.is

Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR) setti í dag vallarmet á Hvaleyrarvelli, en hann lék á 66 höggum eða fimm höggum undir pari, á hvítum teigum. Íslandsmótið fer fram hjá Golfklúbnum Keili, en kylfingarnir léku nýjar 13., 14. og 15. holur sem höfðu aldrei áður verið leiknar í móti. Því var skor Guðmundar það lægsta sem sést hefur á „nýja“ vellinum.

„Ég var nokkuð öruggur af teig, sló nokkur léleg högg sem komu samt á réttum stöðum þannig að ég nýtti tækifærin mín vel og setti nokkur löng pútt í. Þegar maður púttar af góðum grínum eiga púttin til að fara í,“ sagði Guðmundur Ágúst og brosti.

Keilismenn komu Hvaleyrarvelli í toppstand, flatirnar eru mjúkar og rúlla vel og brautirnar þéttar og flottar. Leikið er hreyfingalaust golf.

Hvernig eru nýju holurnar?

„Þær eru flottar, strembnar í þessu roki. Ég sló með dræver og þrjú járni á 14. holu og með blendingi á 15. svo þær eru ekkert grín. Völlurinn er mjög flottur, það var svolítið blautt í morgun svo maður fékk stundum svolítið skítuga bolta en við lentum ekkert í því á seinni níu. Svo rúlla flatirnar frábærlega, þau eru bara mjög góð og sanngjörn.“

Guðmundur er með tveggja högga forystu á Fannar Inga Steingrímsson (GHG), en margir kylfingar eru enn úti á velli svo staðan skýrist ekki fyrr en í kvöld.

Er Íslandsmeistaratitillinn markmiðið?

„Það er að sjálfsögðu markmiðið en ef einhver leikur á 25 höggum undir pari þá verð ég ekkert ósáttur. Ég ætla að sjálfsögðu að halda áfram á sömu braut, þarf kannski að nýta par fimmurnar aðeins betur.“

Hægt er að sjá stöðu mótsins hér.

Guðmundur Ágúst lék vel í dag.
Guðmundur Ágúst lék vel í dag. Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert