Danir drekktu sorgum sínum

Ulrik Wilbek ætlar að gefa Söndergaard og Hansen einn séns …
Ulrik Wilbek ætlar að gefa Söndergaard og Hansen einn séns í viðbót. Scanpix

Eins og alþjóð veit gekk danska handknattleikslandsliðinu ekki sem skyldi á Ólympíuleikunum í síðasta mánuði. Nú er komið upp úr kafinu að tveir leikmanna liðsins, Kasper Söndergaard og Mikkel Hansen, brugðu á það ráð að drekkja sorgum sínum í miðbæ Peking eftir tapið gegn Króatíu í 8-liða úrslitum, þrátt fyrir að enn væru tveir leikir eftir.

Leikmönnum liðsins var uppálagt að þjóra ekki fleiri en einn eða tvo bjóra eftir leikinn, enda átti eftir að spila um 5.-8. sæti, en þeir félagar gengu víst mun lengra í drykkjunni skv. TV2 Sporten. Drykkja Söndergaards var reyndar svo stíf að á endanum ældi hann, og hann veit upp á sig skömmina.

„Það er enginn vafi [að við fórum yfir strikið]. Svona nokkuð má maður ekki gera þegar maður er í landsliðsverkefni,“ sagði Söndergaard við TV2.

Ulrik Wilbek, þjálfari liðsins, hefur sagt leikmönnunum að verði þeir uppvísir að öðru eins aftur muni þeir ekki spila fleiri leiki undir hans stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert