„Hvílir ekki bölvun á mér“

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Skapti Hallgrímsson

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik, er í áhugaverðu viðtali á heimasíðu evrópska handknattleikssambandsins í dag, en hann ræðir þar um úrslitahelgina í Meistaradeildinni.

Hornamaðurinn öflugi gekk til liðs við Barcelona frá THW Kiel eftir síðustu leiktíð, en hann hefur verið magnaður í liði Börsunga sem eru nú þegar búnir að vinna spænsku deildina auk þess sem liðið er komið í fjögurra liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Hann er vel kunnugur úrslitahelginni í Meistaradeildinni, en hann tekur þátt í henni í fimmta sinn í röð. Hann hefur þó aldrei unnið bikarinn.

Ítarlegt viðtal við Guðjón Val er á heimasíðu evrópska handknattleikssambandsins, en hann ræðir um möguleika liðsins.

„Það er enginn munur á liðinu núna og á síðasta ári. Öll lið undirbúa sig vel og markmiðið er alltaf það sama og það er að vinna bikarinn,“ sagði Guðjón Valur.

„Öll lið sem eru partur af úrslitahelginni hafa öll komist þetta langt og vilja öll vinna titilinn. Við eigum því eftir að sjá handboltann á ótrúlega háu stigi.“

Engin heppni að fá Kielce í undanúrslitum

Barcelona mætir pólska meistaraliðinu Kielce í undanúrslitum, en þar vilja margir meina að Börsunga hafi fengið auðveldan andstæðing. Guðjón Valur er ekki sammála því.

„Það er ekki hægt að tala um heppni og óheppni þegar dregið er í undanúrslit. Þeir sem telja að Kielce sé auðveldur andstæðingur hafa einfaldlega rangt fyrir sér og ættu þeir að horfa á þróun liðsins á undanförnum árum,“ sagði Guðjón.

Fjórum sinnum komist í undanúrslit en aldrei unnið

Guðjón er vel kunnugur úrslitahelginni, en þar hefur hann verið fjórum sinnum áður. Þetta verður því í fimmta sinn sem hann tekur þátt í henni en aldrei hefur honum tekist að ná í gull á mótinu.

„Ég held að það hvíli ekki bölvun á mér. Ég hef alltaf haft trú á því að ég gæti unnið þennan bikar einu sinni á ferlinum. Það var svekkjandi að tapa í úrslitum í fyrra gegn Flensburg, en liðið átti því miður sigurinn skilið. Þetta árið mun ég þó taka þetta.“

Hefur aðlagast vel

Það eru níu mánuðir síðan hann gekk til liðs við Barcelona, en hann hafði spilað tólf ár í Þýskalandi og eitt ár í Danmörku.

„Þetta var mjög góð skipti fyrir mig og fjölskylduna eftir að hafa verið tólf ár í Þýskalandi og eitt ár í Danmörku. Ég þurfti að læra tungumálið í Barcelona og þurfti hjálp fyrir hluti í hversdagslífinu.“

„Ég og fjölskyldan byrjuðum bara á núlli, en þekktum þó þessa stöðu. Við erum núna búin að koma okkur fyrir og börnunum líkar vel í borginni,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert