Sumarfrí kom ekki til greina

Rakel Dögg Bragadóttir freistar þess að koma boltanum yfir Önnu …
Rakel Dögg Bragadóttir freistar þess að koma boltanum yfir Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur í viðureign Stjörnunnar og Gróttu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum bara í þeirri stöðu að verða að vinna leikinn. Annað var ekki í boði þar sem við vorum 2:0 undir og tap þýddi sumarfrí hjá okkur. Þess vegna kom ekkert annað til greina en sigur. Það var markmiðið frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu,“ sagði Hanna Guðrún Stefánsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir sigur Stjörnunnar, 19:14, á Gróttu í þriðja undanúrslitaleik á Íslandsmóti kvenna í handknattleik í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld.

„Við ákváðum að útiloka okkur frá umræðu síðustu daga,“ sagði Hanna enn fremur og vísaði til þess máls að sigur Stjörnunnar í annarri viðureign liðanna á sunnudaginn var síðar úrskurðaður sem sigur Gróttu vegna þess að einn leikmaður sem tók þátt í viðureigninni var ekki á leikskýrslu þegar á hólminn var komið.

„Við vildum bara halda áfram að leika eins við gerðum í annarri viðureigninni og okkur tókst það. Okkur langaði ekki í sumarleyfi. Það er hins vegar nóg eftir af þessu verkefni og stutt er í næstu viðureign. Þá verðum við halda áfram að færa það góða með okkur úr þessum leik yfir í þann næsta. Um leið vil ég þakka áhorfendum fyrir þá frábæru stemningu sem var á leiknum í kvöld og skora á þá að mæta aftur á Nesið á fimmtudagskvöldið og halda uppteknum hætti. Það var frábært að eiga áttunda manninn í stuðningsmönnum okkar. Við erum allar afar stoltar af okkar fólki að þessu sinni,“ sagði Hanna Guðrún Stefánsdóttir, leikmaður Stjörnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert