Kiel að gefast upp á Alfreð?

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Ljósmynd/Jonas Guettler

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska stórliðsins Kiel í handknattleik, er orðinn valtur í sessi eftir slæma frammistöðu liðsins það sem af er tímabili. Það er hins vegar ekki einfalt mál að skipta um þjálfara.

Staðarblaðið Kieler Nachrichten greinir frá því í morgun að það yrði rándýrt fyrir félagið að láta Alfreð fara. Samningur hans rennur út vorið 2019 og þurfti því að borga honum stóra upphæð til þess að fara frá, og raunar þyrfti félagið að borga tvöföld há laun enda ekki í boði hjá Kiel nema að hafa toppþjálfara.

Meðal þeirra sem orðaðir eru við starfið er Nikolaj Jacobsen, sem stýrði Rhein-Neckar Löwen til sigurs í deildinni í fyrra og er einnig landsliðsþjálfari Danmerkur, og Dagur Sigurðsson sem nú þjálfar japanska landsliðið.

Miðillinn greinir frá því að ódýrari leið fyrir Kiel ef Alfreð færi frá væri að láta aðstoðarþjálfarann Christian Sprenger taka við. Framkvæmdastjóri félagsins hefur þó látið hafa eftir sér að hagsmunir liðsins gangi fyrir öllu öðru.

Kiel er aðeins í 8. sæti þýsku 1. deildarinnar og eftir tap fyrir Gummersbach í vikunni fóru sögur af stað að Alfreð sé orðinn valtur í sessi. Markmiðið fyrir tímabilið hafi verið þriðja sætið fyrir áramót, en það er úr sögunni núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert