Arnór og Oddur atkvæðamiklir

Landsliðsmaðurinn Arnór Þór Gunnarsson er á leið aftur í þýsku …
Landsliðsmaðurinn Arnór Þór Gunnarsson er á leið aftur í þýsku 1. deildina. mbl.is/Árni Sæberg

Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer virðast ætla að fljúga aftur upp í efstu deild Þýskalands í handbolta en þeir styrktu stöðu sína á toppi 2. deildar með sigri í kvöld.

Arnór skoraði sex mörk í 26:23-sigri á Hagen í kvöld. Bergischer hefur unnið 22 af 23 leikjum sínum í vetur og er með 44 stig, níu stigum á undan Bietigheim og 11 stigum frá 3. sætinu, en tvö efstu lið deildarinnar komast beint upp í efstu deild, þar sem Bergischer lék síðasta vetur.

Oddur Gretarsson skoraði einnig sex mörk í kvöld fyrir Balingen, í 27:21-sigri á Coburg. Balingen er í 9. sæti með 27 stig en Coburg í 6. sæti með aðeins stigi meira.

Fannar Þór Friðgeirsson skoraði svo tvö mörk fyrir Hamm í 28:28-jafntefli við Wilhelmshavener á útivelli. Hamm missti þar með af mikilvægu stigi í toppbaráttunni en liðið er í 4. sæti með 32 stig, þremur stigum frá 2. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert