Aron hafði betur í Íslendingaslagnum

Aron Pálmarsson á æfingu með Barcelona.
Aron Pálmarsson á æfingu með Barcelona. Ljósmynd/VICTOR SALGADO,FC Barcelona

Barcelona nálgaðist Vardar sem trónir á toppi A-riðils í Meistaradeild Evrópu í handbolta karla með 26:21-sigri sínum gegn Kristianstad í 13. umferð riðlakeppninnar í dag.

Aron Pálmarssson skoraði þrjú mörk fyrir Barcelona í leiknum. Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk fyrir Kristianstad, en Ólafur Andrés Guðmundsson hafði óvenju hægt um sig og skoraði eitt mark. Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað fyrir Kristianstad.

Stefán Rafn Sigurmannsson náði ekki að setja mark sitt á leikinn þegar lið hans, Pick Szeged, vann 30:28-sigur gegn Zagreb í sama riðli.  

Vardar er á toppi A-riðilsins með 20 stig, en Barcelona andar í hálsmálið á þeim með 18 stig eftir þennan sigur. Efsta lið riðilsins fer beint í átta liða úrslit keppninnar.

Pick Szeged er komið langleiðina í 16 liða úrslit keppninnar, en sigurinn þýðir að liðið hefur 13 stig í fimmta sæti riðilsins og er fimm stigum á eftir liðunum fyrir neðan sig þegar níu stig eru eftir í pottinum.  

Kristianstad hefur jafn mörg stig og Zagreb og Wisla Plock í sjötta til áttunda sæti riðilsins, en liðin sem hafna í öðru til sjötta sæti riðilsins fara í 16 liða úrslit keppninnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka