Erlingur tekur við Eyjamönnum

Erlingur Richardsson.
Erlingur Richardsson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Erlingur Richardsson hefur samið við handknattleiksdeild ÍBV um að þjálfa karlalið félagsins næstu þrjú árin, frá og með komandi sumri þegar hann tekur við af Arnari Péturssyni sem lætur af störfum að þessu tímabili loknu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá handknattleiksdeild ÍBV.

Erlingur var lengi leikmaður ÍBV og tekur nú við þjálfun liðsins í þriðja sinn. Hann var síðast með liðið tímabilið 2012-13 þegar það vann 1. deildina en þá stýrðu hann og Arnar liðinu saman. Áður þjálfaði hann lið HK sem varð Íslandsmeistari undir stjórn hans og Kristins Guðmundssonar árið 2012.

Erlingur þjálfaði síðan West Wien í Austurríki og Füchse Berlín í Þýskalandi en síðarnefnda liðið varð heimsmeistari félagsliða undir hans stjórn. Þá hefur hann í tæpt ár verið landsliðsþjálfari Hollendinga í karlaflokki og er á leið með þá í umspil um sæti á HM í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert