Við erum tilbúnir í stríð í Turda

Aron Rafn Eðvarðsson.
Aron Rafn Eðvarðsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við erum sagðir spila fast, er ekki rætt um það? Þar af leiðandi erum við tilbúnir í stríð ef leikmenn Turda vilja það,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður ÍBV, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Leikmenn ÍBV mæta rúmenska liðinu Turda á sunnudaginn í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum Áskorendakeppni karla í handknattleik. ÍBV vann fyrri viðureignina á heimavelli á laugardaginn, 31:28, og eru þar af leiðandi með þriggja marka forskot í farteksinu.

Valur mætti Turda í undanúrslitum sömu keppni fyrir ári síðan. Eftir sjö marka sigur á heimavelli töpuðu Valsmenn með níu marka mun í Turda. Reyndar fengu heimamenn drjúga aðstoð frá dómurum leiksins. Vonandi verður ekki sama upp á teningnum nú. Norskir dómarar dæma leik Turda og ÍBV á sunnudaginn en Tékkar voru með flauturnar á lofti í leiknum eftirminnilega í Turda fyrir ári.

„Við áttum möguleika á að gera betur í fyrri leiknum, bæði í sóknarleiknum þar sem við nýttum ekki færin sem skyldi. Þess utan þá átti ég að klukka fleiri bolta. En við höfum þriggja marka forskot og við munum vinna út frá því,“ sagði Aron Rafn í samtali við Morgunblaðið í gærmorgun þar sem hann beið ásamt félögum sínum í ÍBV og tíðindamanni eftir að komast upp í flugvélina sem flutti hópinn til Búdapest. Það verður síðan farið með fólksflutningabíl til Turda í Rúmeníu í dag. Reiknað er með sex tíma ferð frá Búdapest til Turda sem er í norðausturhluta Rúmeníu.

Aron Rafn segir að leikmenn ÍBV hafi farið lítillega yfir fyrri leikinn við Turda á dögunum en vegna viðureignar við Hauka í undanúrslitum Íslandsmótsins á þriðjudagskvöldið hafi einbeitingin verið meiri á þann leik.

„Nú hefst undirbúningur fyrir sunnudagsleikinn. Við byrjum að vinna á fullu við komuna til Búdapest og einbeitum okkur alfarið að leiknum fram á sunnudag,“ sagði Aron Rafn sem segist hvergi vera banginn. „Ég bjó mig vel undir fyrri leikinn en miðað við frammistöðu mína þá verð ég að leggjast betur yfir leikmenn Turda-liðsins að þessu sinni,“ sagði Aron Rafn og bætti við að leikmenn Turda hefðu ekki komið honum í opna skjöldu. Þeir hefðu leikið og skotið á markið eins hann hefði verið búinn að búa sig undir.

„Við verðum líka að loka vörninni betur á sunnudaginn en við gerðum í fyrri leiknum. Leikmenn Turda náðu oft að sleppa fulllétt á milli okkar.“

Sjá allt viðtalið við Aron Rafn í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert