Ísland fékk silfrið í Króatíu

Haukur Þrastarson í leiknum í dag.
Haukur Þrastarson í leiknum í dag. Ljós­mynd/​m18euro2018.com

Íslenska karla­landsliðið í hand­bolta skipað leik­mönn­um 18 ára og yngri varð að sætta sig við silfrið á Evrópumótinu í Króatíu eftir 32:27-tap gegn Svíþjóð í úrslitaleiknum í dag.

Íslensku strákarnir fóru illa af stað og lentu 7:1-undir strax snemma leiks. Þeir svöruðu þeim kafla þó heldur betur og í stöðunni 9:3 tókst Íslandi að skora sex mörk í röð. Staðan var svo jöfn í hálfleik, 12:12, en strákunum tókst þó aldrei að komast yfir.

Leikurinn var áfram stál í stál í síðari hálfleiknum en undir lok hans náði Svíar loks forystu sem þeir gáfu ekki frá sér, lokatölur 32:27. Eiríkur Guðni Þórarinsson var markahæstur í íslenska liðinu með sjö mörk og þá skoruðu þeir Dagur Gautason og Haukur Þrastarson fjögur mörk hvor.

Fyrr í dag vann Danmörk 26:24-sigur á heimamönnum í Króatíu og tók því bronsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert