Aron og Bjarki Már á HM í Katar

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Barcelona

Landsliðsmennirnir Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson eru komnir til Doha í Katar þar sem þeir taka þátt í heimsmeistaramóti félagsliða í handknattleik með liðum sínum, Barcelona og Füchse Berlin. Mótið hefst á morgun.

Barcelona tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem ríkjandi meistari en Börsungar stefna á að vinna heimsmeistaratitil félagsliða í fjórða sinn. Barcelona mætir Al Najma frá Barein í átta liða úrslitum keppninnar en AL Najma vann Meistaradeild Asíu.

Bjarki Már Elísson hefur orðið heimsmeistari félagsliða í tvígang.
Bjarki Már Elísson hefur orðið heimsmeistari félagsliða í tvígang. Ljósmynd/Füchse Berlin.

Füchse Berlin vann sigur í EHF-keppninni á síðustu leiktíð og tryggði sér þar með farseðilinn til Doha. Bjarki Már og félagar leika við Taubate frá Brasilíu í átta liða úrslitunum en Bjarki hefur tvívegis unnið heimsmeistaratitil félagsliða með þýska liðinu.

Í hinum tveimur leikjunum í átta liða úrslitunum eigast við Evrópumeistarar Montpellier og afrísku meistararnir í L’Association Sportive Hammamet frá Túnis og Al-Sadd frá Katar mætir Eyjaálfumeisturunum í Sydney University frá Ástralíu.

Þetta er níunda árið í röð sem heimsmeistaramót félagsliða er haldið í Doha en lið frá Þýskalandi og Spáni hafa hampað heimsmeistaratitlinum í öll skiptin. Ciudad Real frá Spáni vann mótið 2010 og 2012. Barcelona varð meistari 2013, 2014 og 2017. Kiel vann titilinn 2011 og Füchse Berlin 2015 og 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert