Aron í úrslitin á HM í Katar

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Barcelona

Aron Pálmarsson á möguleika á að bæta enn einum titli í safn sitt en Aron og félagar hans í Barcelona tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum á heimsmeistaramóti félagsliða í handknattleik í Doha í Katar í dag með því að vinna Evrópumeistara Montpellier 37:30 í fyrri undanúrslitaleiknum á mótinu.

Montpellier var einu marki yfir í hálfleik 19:18 en í síðari hálfleik náðu Börsungar að þétta varnarleik sinn til mikilla muna og hægt og bítandi sigu þeir fram úr og unnu öruggan sigur.

Aron lék síðustu 15 mínúturnar í hvorum hálfleik, skoraði 2 mörk og átti tvær laglegar stoðsendingar en Casper Mortensen og Timothey Guessan voru markahæstir í liði Börsunga með 7 mörk hvor. Barcelona á titil að verja en það hefur fjórum sinnum fagnað sigri á heimsmeistaramóti félagsliða.

Barcelona mætir þýska liðinu Füchse Berlín, liði Bjarka Más Elíssonar, eða Al Sadd frá Katar í úrslitaleiknum en eigast við í síðari undanúrslitaleiknum síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert