Svíar geta enn skákað Spánverjum

Svíinn Olivia Mellegård reynir skot að marki Rúmena í leiknum …
Svíinn Olivia Mellegård reynir skot að marki Rúmena í leiknum í dag. AFP

Svíar eru áfram með í baráttunni um sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í Japan eftir afar sannfærandi sigur á Rúmenum, 34:22, í leik sem var að ljúka í Kumamoto.

Fyrir lokaumferðina í milliriðli tvö á morgun eru Rússar komnir áfram með 8 stig en Spánverjar með 7 stig og Svíar með 5 stig berjast um að fylgja þeim þangað.

Spánverjar mæta Rússum og nægir jafntefli, en tapi spænsku konurnar leiknum geta þær sænsku farið uppfyrir þær spænsku á markatölu með sigri á Svartfellingum. Fyrir leikina munar sex mörkum, Spánverjum í hag.

Sænska liðið náði fimm marka forskoti á lokamínútum fyrri hálfleiks gegn Rúmenum í dag og staðan var 14:9 í hálfleik. Svipaður munur hélst frameftir seinni hálfleik en sænska liðið hreinlega valtaði yfir Rúmena á lokakaflanum og skoraði fimm síðustu mörkin.

Olivia Mellegard skoraði 7 mörk fyrir Svía og Mikaela Massing 5 en hjá Rúmenum voru Cristina-Georgiana Neagu, Aneta Udristioiu og Crina-Elena Pintea með 4 mörk hver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert