Viggó fór illa með gömlu félagana

Viggó Kristjánsson í búning Wetzlar.
Viggó Kristjánsson í búning Wetzlar. Ljósmynd/HSG_Wetzlar

Viggó Kristjánsson skoraði sex mörk fyrir Wetzlar í 29:26-útisigri gegn Leipzig í þýsku 1. deildinni í handknattleik í dag en hann kom til félagsins frá Leipzig í síðasta mánuði.

Viggó skipti nokkuð óvænt um lið í nóvember en virðist hafa komið sér vel fyrir hjá Wetzlar sem er með 16 stig í 9. sætinu eftir 16 leiki, rétt eins og Leipzig sem er í 8. sæti. Viggó skoraði sex mörk í sigrinum í dag og fór þar illa með gömlu félagana en hann var markahæstur í sínu liði.

Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Erlangen unnu 29:26-sigur á Minden á útivelli en Nordhorn, undir stjórn Geirs Sveinssonar, varð að sætta sig við 28:26-tap gegn Göppingen.

Arnþór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Bergischer sem tapaði 24:23 á heimavelli gegn Magdeburg og þá spilaði Elvar Ásgrímsson fyrir Stuttgart sem tapaði stórt gegn Kiel, 29:21 á heimavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert