Gísli markahæstur í fjarveru Ómars

Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæstur hjá Magdeburg.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæstur hjá Magdeburg. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Þýskalandsmeistararnir í Magdeburg höfðu betur gegn Wisla Plock frá Póllandi á heimavelli sínum í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Urðu lokatölur 33:27.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Hollendingurinn Kay Smits voru markahæstir hjá Magdeburg með átta mörk hvor. Ómar Ingi Magnússon lék ekki með Magdeburg í dag. Samkvæmt frétt á heimasíðu félagsins er ástæða þess persónuleg.

Magdeburg er í öðru sæti A-riðils með sex stig eftir fjóra leiki, tveimur stigum á eftir Bjarka Má Elíssyni og félögum í Vezprém frá Ungverjalandi.

Aron Pálmarsson gerði eitt mark fyrir Aalborg í 41:29-útisigri á Pick Szeged frá Ungverjalandi. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins.

Orri Freyr Þorkelsson komst ekki á blað hjá Elverum er liðið mátti þola 30:46-tap fyrir spænska stórliðinu Barcelona.

Barcelona er í toppsæti B-riðils með átta stig, Aalborg er í öðru með sex en Elverum er án stiga á botninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert