Vörnin sá um að breikka bilið

Erlingur Richardsson
Erlingur Richardsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Varnarleikurinn og markvarslan gerði þetta að verkum, það skilaði okkur líka hraðaupphlaupum í fyrri hálfleiknum. Við náum að halda skipulagi á leiknum og koma með eitt mark í einu, á sama tíma halda forystunni og vörnin sá um að breikka bilið,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is en hann var mjög sáttur með sitt lið eftir 9 marka sigur á Stjörnunni í Vestmannaeyjum í kvöld.

Vörn og markvarsla var ekki upp á marga fiska fyrstu mínútur leiksins hjá Eyjamönnum þó.

„Petar var ekki alveg að byrja vel en kom svo inn í leikinn og náði að negla það. Við vorum að sama skapi klaufar hinu megin og misstum boltann klaufalega sóknarlega, þá náðu þeir þessu þriggja marka forskoti. Við náðum sem betur fer að koma fljótt til baka,“ sagði Erlingur en ÍBV voru fljótir að vinna upp þetta forskot og leiddu í hálfleik með tveimur mörkum.

Þrjá lykilmenn vantaði hjá Stjörnunni, bjóst Erlingur við því að leikurinn yrði auðveldur þegar hann sá það?

„Nei aldeilis ekki, það hefur oft sýnt sig að þó að það vanti einhverja leikmenn þá koma bara aðrir í staðinn. Það vantaði þó vissulega lykilpósta hjá þeim, það á þó ekki að skipta miklu máli hjá Stjörnuliðinu,“ sagði Erlingur og stuðlar það við það sem Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, sagði í sínu viðtali.

Róbet Sigurðarson kom inn í lið ÍBV í fyrsta skiptið í kvöld eftir langan tíma í stúkunni, hvað fannst Erlingi um hans frammistöðu?

„Hann var frábær, þetta er fyrsti leikurinn þar sem þeir spila saman í þristunum, hann og Ísak, þetta gekk vonum framar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert