Þriggja liða barátta

Annað kvöld ræðst hvort það verður Ísland, Nígería eða Argentína sem kemst í 16-liða úrslit heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Báðir leikir lokaumferðarinnar hefjast klukkan 18 að íslenskum tíma, en Ísland mætir Króatíu í Rostov og Argentína mætir Nígeríu í Pétursborg.

Króatía er með 6 stig og komin áfram, Nígería er með 3 stig, Ísland 1 og Argentína 1 stig. Möguleikarnir í stöðunni eru eftirtaldir:

*Ef Nígeríumenn vinna Argentínu verða þeir með 6 stig og fylgja Króötum í sextán liða úrslitin. Nígeríumenn gætu mögulega náð efsta sætinu af þeim, tapi Króatar fyrir Íslendingum, en þá þarf sveiflu í markatölunni hjá báðum liðum.

*Ef Nígería og Argentína gera jafntefli þarf Ísland að vinna minnst tveggja marka sigur á Króötum til að ná öðru sætinu. Þá yrðu Ísland og Nígería bæði með 4 stig og Argentína neðst með 2 stig. Ef Ísland ynni 2:0 og leikur Nígeríu og Argentínu endaði 0:0 næði Ísland öðru sæti með markatöluna 3:3 en Nígería væri í þriðja sæti með 2:2. Ísland verður alltaf að skora tveimur mörkum meira en Nígería til að tveggja marka sigur dugi.

*Ef Argentína vinnur Nígeríu nægir Íslandi að vinna jafnstóran sigur á Króatíu. Endi báðir leikirnir t.d. 1:0 verður Ísland með 4 stig og markatöluna 2:3 en Argentína með 4 stig og markatöluna 2:4. Ef Argentína vinnur með eins marks meiri mun en Ísland ræðst niðurstaðan af því hvor þjóðin hefur skorað fleiri mörk samtals í riðlinum. Ef Argentínumenn vinna tveimur mörkum stærri sigur en Íslendingar, t.d. 3:0 á móti 1:0, fara þeir áfram á betri markatölu.

Ráða spjöldin úrslitum?

Sá möguleiki er fyrir hendi að fjöldi spjalda ráði úrslitum um hvort Ísland eða Argentína komist í 16-liða úrslit. Til þess þarf að grípa ef liðin enda bæði með 4 stig og fá nákvæmlega sömu markatölu, t.d. ef Ísland vinnur Króatíu 2:1 og Argentína vinnur Nígeríu 2:0. Þá yrði markatala beggja 3:4 og þar sem liðin skildu jöfn í sínum leik færi það lið áfram sem væri með færri spjöld í leikjum sínum. Þar er staðan eftir tvær umferðir sú að Ísland hefur enn ekkert spjald fengið en Argentína hefur fengið þrjú gul spjöld. Ísland stendur því aðeins betur að vígi að því leyti, enn sem komið er.

Aron Einar Gunnarsson og Kelechi Iheanacho í leik Íslands og …
Aron Einar Gunnarsson og Kelechi Iheanacho í leik Íslands og Nígeríu. Þeir verða báðir í eldlínunni annað kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert