Við virðum andstæðinginn

Zlatko Dalic á fréttamannafundinum í dag.
Zlatko Dalic á fréttamannafundinum í dag. AFP

Zlatko Dalic, landsliðsþjálfari Króata í knattspyrnu, var spurður á fréttamannafundi sem nú stendur yfir á Rostov Arena hvernig spila eigi gegn íslenska liðinu en Króatar og Íslendingar eigast við í lokaumferð D-riðilsins á HM á morgun.

„Við erum með okkar eigin stíl og ætlum að nota hann. Við vitum allt um íslenska liðið, lékum tvisvar við það í forkeppninni og það er ekkert sem við vitum ekki. Við þurfum að verjast föstu leikatriðunum og löngu sendingunum þeirra.

Við notum okkar eigin stíl með boltann. Við þurfum að vera þéttir fyrir, fljótir í vörn og ógna þeim. Við virðum andstæðinginn, þeir voru efstir í forkeppninni og eru mjög erfiðir. Við munum þurfa að hafa mikið fyrir þessu,“ sagði Dalic.

Eruð þið svekktir enn þá eftir tapið gegn Íslandi í síðasta leik, og nýtið þið ykkur það?

„Það tap þýddi að við þurftum á endanum að fara í umspil. En nú eru algjörlega nýjar aðstæður. Það væri ágætt að gera upp reikningana, en þetta er algjörlega ný keppni. Króatía er örugg áfram, en Ísland þarf að berjast fyrir því. Þetta tap hafði áhrif á okkur, en á morgun er næsta tækifæri til að gera upp málin. Við verðum að gera eins vel og í síðustu tveimur leikjum,“ sagði Dalic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert