„Umgjörðin verður geggjuð“

Ásgeir Örn Hallgrímsson.
Ásgeir Örn Hallgrímsson. mbl.is/Golli

„Þeir gerast varla stærri leikirnir og við erum bara mjög spenntir og fullir tilhlökkunar,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, landsliðsmaður í handknattleik, við mbl.is á hóteli íslenska landsliðsins í Lille í kvöld.

Íslendingar eru að búa sig undir gríðarlega erfiða rimmu við heimsmeistara Frakka í 16-liða úrslitunum á HM sem fram fara í Lille á morgun.

„Það verður geggjuð umgjörð á leikvanginum og verður eitthvað sem við eigum að muna lengi eftir. Frakkarnir eru að sjálfsögðu nokkuð vissir um að þeir fari með sigur af hólmi. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta verður mjög erfiður leikur fyrir okkur. En vegna þess að það verður mikið húllumhæ í kringum leikinn þá verður pressa á Frökkunum,“ sagði Ásgeir, sem þekkir franska boltann út og hinn en hann leikur með franska liðinu Nimes.

„Við ætlum að mæta alveg dýrvitlausir og spila til sigurs. Ég hef engar áhyggjur af því að þessi mikla og stóra umgjörð sem verður á leiknum muni eitthvað slá okkur út af laginu. Þvert á móti þá held ég að þetta verði bara til þess að „peppa“ okkur upp. Ég tel að við getum mætt til leiks pressulausir og við náum toppleik þá efast ég ekkert um það að við getum veitt þeim keppni,“ sagði Ásgeir.

„Frakkar eru stórveldi í handboltanum og hafa verið það lengi. Hryggjarstykkið í þeirra liði eru Karabatic, Narcisse, Abalou, Guigou og Omayer markvörður og svo ná þeir alltaf að koma upp með mjög góða leikmenn. Uppleggið hjá okkur er að sjá til þess að þegar leikurinn er búinn þá hafi menn ekki skilið neitt eftir og gefið neitt eftir. Ef það dugar ekki til þá er það bara þannig,“ sagði Ásgeir Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert