Frakkar taplausir á HM í sex ár

Frakkar fagna jafnteflinu gegn Þjóðverjum í gærkvöld.
Frakkar fagna jafnteflinu gegn Þjóðverjum í gærkvöld. AFP

Timothy N’Guessan bjargaði Frökkum frá því að tapa fyrsta leik sínum á heimsmeistaramóti í handknattleik frá árinu 2013 þegar hann jafnaði metin gegn Þjóðverjum þremur sekúndum fyrir leikslok í mögnuðum leik í A-riðli heimsmeistaramótsins í Berlín í gærkvöld.

Frakkar hafa þar með spilað 22 leiki í röð án ósigurs í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins en óhætt er að segja að þeir hafa sloppið með skrekkinn í gærkvöld í klárlega besta leik keppninnar til þessa.

Frakkar töpuðu síðast á heimsmeistaramóti á HM á Spáni 2013 þegar þeir biðu lægri hlut fyrir Þjóðverjum í riðlakeppninni 32:30. Frakkar eru sexfaldir heimsmeistarar en þeir unnu sinn fyrsta heimsmeistaratitil á Íslandi árið 1995 og hafa síðan hampað heimsmeistaratitlinum 2001, 2009, 2011, 2015 og 2017.

„Leikurinn var frá upphafi til enda frábær og það er góður andi okkar liði í dag. Við erum ánægðir með að hafa tekið stig af heimsmeisturunum,“ sagði Christian Prokop, þjálfari þýska landsliðsins, eftir leikinn en í fyrrakvöld fengu Þjóðverjar einnig jöfnunarmark á sig á lokasekúndunum gegn Rússum.

„Þetta var virkilega erfiður leikur en ég verð að hrósa mínu liðinu. Það hélt haus allan tímann,“ sagði Didier Dinart þjálfari Frakka eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert