Stórhættulegur andstæðingur

Guðmundur Þórður Guðmundson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.
Guðmundur Þórður Guðmundson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla. AFP

„Ég held að það hafi verið gott fyrir okkur að mæta Brasilíumönnum skömmu fyrir HM. Þá lögðum við upp ákveðna leikaðferð sem gekk upp. Mörgum þótti fjögurra marka sigur ekki mikill,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson léttur í bragði í samtali við mbl.is þegar hann var spurður út í viðureignina við Brasilíumenn í dag og leikinn við þá á móti í Ósló í upphafi árs.

Flautað verður til leiks Íslands og Brasilíu í Lanxess-Arena í Köln klukkan 14.30 í dag.

„Brasilíska liðið er reynslumikið. Þetta er nánast sami leikmannahópur og tók þátt í Ólympíuleikunum í Ríó 2016 þar sem Brasilíumenn höfnuðu í sjöunda sæti og unnu m.a. þýska landsliðið. Leikmenn eru líkamlega sterkir og leikur liðsins vel skipulagður. Með sanni má segja að þetta sé stórhættulegur andstæðingur,“ sagði Guðmundur Þórður enn fremur. „Króatar lentu á vegg gegn Brasilíumönnum og Frakkar voru stálheppnir að vinna með tveggja marka mun eftir nokkurn barning. Úrslitin réðust á síðustu mínútum.“

Guðmundur Þórður sagði íslenska liðið hafa farið vel yfir brasilíska liðið og um leið sett sér það markmið að vinna lokaleik sinn í mótinu. „Það verður ekki einfalt að vinna þá. Við söknum mjög mikilvægra leikmanna sem hafa yfir mikill reynslu að ráða. Af því leiðir að aðrir verða að taka við keflinu. Þeir eru hins vegar ungir að árum. Verkefni þeirra verður stórt, að glíma við jafn gott lið og Brasilíumenn hafa í lokaleik á heimsmeistaramóti. Lið sem hefur vaxið eftir því sem á mótið hefur liðið.

Brasilíumenn eru með gott lið. Keppnin hefur reynt mjög á okkur því við höfum leikið marga erfiða leiki, en við munum leggja allt í sölurnar í lokaleiknum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert