Helena fékk óskina uppfyllta

Landsliðskonurnar Pálína Gunnlaugsdóttir, Helena Sverrisdóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir.
Landsliðskonurnar Pálína Gunnlaugsdóttir, Helena Sverrisdóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir. Mynd/KKÍ

Dregið hefur verið í riðla fyrir undankeppni Evrópumóts kvenna í körfuknattleik sem fer fram árið 2017 í Tékklandi. Ísland er skráð til leiks og var í fjórða styrkleikaflokki, en dregið var í Munchen í Þýskalandi í morgun.

Ísland dróst í riðil með Slóvakíu úr 1. styrkleikaflokki, Ungverjalandi úr 2. styrkleikaflokki og Portúgal úr 3. styrkleikaflokki. Margir sterkir andstæðingar voru mögulegir fyrir Ísland, meðal annars Evrópumeistarar Serbíu.

„Það væri gaman að spila á móti gömlum liðsfélögum en ég hef enga sérstaka óskamótherja,“ segir landsliðskonan Helena Sverrisdóttir í Morgunblaðinu í dag. Það er ljóst að hún fékk ósk sína uppfyllta, en hún hefur bæði leikið í Slóvakíu og Ungverjalandi.

Dregið varí níu riðla. Sex þeirra eru fjögurra liða og þrír þeirra þriggja liða. Efsta sætið í hverjum riðli fer áfram í lokakeppnina ásamt þeim sex liðum sem eru með bestan árangur í öðru sæti. Til að finna út hvaða lið standa best að vígi í öðru sæti verða úrslit leikja þess liðs sem endar í neðsta sæti í fjögurra liða riðlunum tekin út. Tékkland er komið áfram í i lokakeppnina þar sem þeir eru gestgjafar.

Er þetta í fyrsta sinn frá undankeppninni 2009 sem Ísland er skráð til leiks. Fyrstu leikirnir fara fram í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert