Ljóðagerð landsliðsmanna

Axel Kárason
Axel Kárason mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik mætir Þýskalandi í fyrsta leik sínum í Evrópukeppninni í Berlín á morgun. Leikmenn liðsins hafa undirbúið sig á margvíslegan hátt fyrir þetta fyrsta stórmót í sögu íslensks körfubolta, og í frétt á vef Körfuknattleikssambands Íslands er sagt frá þeirri dægrastyttingu þeirra að setja saman vísur hver um annan.

Þar er birt ljóð sem Axel Kárason samdi en sagt er að honum hafi þótt kveðskapur félaga sinna vera hálfgerður leir. Ljóðið hljóðar þannig:

Leggja nú á lífsins öldur,
ljós í brjóstum þeirra skína.
Eru landsins sverð og skjöldur,
sterkir duginn ávallt sýna.

Smæstir standa meðal þjóða,
sameinaðir þó halda vörð.
Því tryggð og trú við allt það góða,
tendrar elda um alla jörð.

Með vilja og von seglin reisa,
vindar blása strax í nausti.
Einn og allir festar leysa,
á þessu litla fagra hausti.

Mót risum eigi bræður blikna,
berjast, gleðjast, njóta nú.
Kappar þessir aldrei kikna,
keikir spyrja, hver ert þú?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert