Áttum þennan alveg skilið

Þröstur Leó Jóhannsson.
Þröstur Leó Jóhannsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þröstur Leó Jóhannsson átti flottan leik fyrir Þór í kvöld þegar þeir sigruðu Tindastól 93-81 í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Þröstur var því kampakátur þegar blaðamaður náði af honum tali eftir leik:

„Þetta var bara barátta, barátta, barátta. Þetta var ekkert brillíant sóknarlega hjá okkur en vörnin hjá okkur var nánast upp á 10 í allan dag. Við áttum þennan alveg skilið,“ sagði Þröstur glaðbeittur eftir að hafa fengið að fagna með félögum sínum inni í klefa og komið svo fram í viðtal.

Þórsarar hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu og sjálfstraust og leikgleði einkenndi liðið í kvöld: „Þrátt fyrir að við eigum slæman dag sóknarlega eða slæman dag varnarlega eins og á móti Njarðvík í síðustu umferð þá höfum við alltaf sjálfstraustið að við náum að sigra þetta. Við settum bara í lás í 4. leikhluta og þeir skoruðu varla. Það var bara geggjað en það verður erfitt að mæta þeim næst þegar Israel [þjálfari Tindastóls innsk. blm] verður búinn að greina þetta og setja upp eitthvað á móti þessu,“ sagði Þröstur.

Þórsarar reyndu að kveikja smá ríg fyrir leik með stuttu myndbandi sem birtist á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Þórs:

„Við reyndum að peppa þennan leik og vera með læti en þeir vildu ekki gera eins mikið úr þessu eins og við. Þeir voru ekki klárir í að búa til alvöru nágrannaslag úr þessu og vorum við farnir að hafa áhyggjur af að þeir væru að nota sér þetta myndband sem við bjuggum til til þess að „mótívera“ sig en það hefur greinilega ekki pirrað þá eins mikið og maður bjóst við að það myndi gera,“ sagði Þröstur en myndbandið var einkar skemmtilegt og má sjá með því að smella hér: https://www.youtube.com/watch?v=CuA-LhCLDdA.

Þröstur lék fyrir nokkrum árum með Tindastól og ber því ákveðnar taugar til liðsins: „Ég persónulega man ekki einu sinni núna hvaða leikur er næst. Við tökum bara einn leik í einu. Þessi leikur var reyndar búinn að vera undirliggjandi svolítið lengi fyrir mig þar sem ég spilaði með Tindastól fyrir nokkrum árum og því er „extra“ gaman að vinna þá hérna í dag sagði Þröstur sem skokkaði svo inn í klefa til þess að halda áfram að fagna með félögum sínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert