Þjálfarinn og lykilmaðurinn hættir

Goran Dragic hefur bikarinn á loft eftir sigur Slóvena á …
Goran Dragic hefur bikarinn á loft eftir sigur Slóvena á Evrópumótinu í körfuknattleik á sunnudaginn. AFP

Gor­an Dragic, lykilmaðurinn í nýkrýndu Evrópumeistaraliði Slóvena í körfuknattleik, greindi frá því í dag að ferli hans með landsliðinu væri lokið og þá hefur þjálfarinn Igor Kokoskov ákveðið að segja skilið við liðið.

„Ég hef náð því sem ég óskaði mér og nú held ég að það sé rétt að segja skilið við landsliðið,“ sagði hinn 31 árs gamli Dragic við fréttamenn í dag en hann ætlar að einbeita sér að félagsliði sínu, Miami Heat í NBA-deildinni.

Dragic lék því kveðjuleik sinn með landsliðinu í úrslitaleiknum gegn Serbum á sunnudaginn þar sem Slóvenar fögnuðu Evrópumeistaratitlinum. Dragic fór á kostum og skoraði 35 stig í úrslitaleiknum.

Landsliðsþjálfarinn Igor Kokoskov ætlar sömuleiðis að helga alla krafta sína Utah Jazz í NBA-deildinni en hann er aðstoðarþjálfari liðsins.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert