LeBron sér sjálfan sig í Ball

LeBron James hefur mikið álit á Lonzo Ball.
LeBron James hefur mikið álit á Lonzo Ball. AFP

Stórstjarnan LeBron James, leikmaður Cleveland Cavaliers í NBA-körfuboltanum, hefur mikið álit á nýliðanum Lonzo Ball. Ball leikur með Los Angeles Lakers og hafa verið skiptar skoðanir um spilamennsku hans hingað til. James segist hins vegar sjá sjálfan sig í spilamennsku leikmannsins unga til þessa. 

Mikil pressa var á Ball fyrir leiktíðina og James er hrifinn af því hvernig hann tekst á við það. „Strákurinn hefur ekki sagt neitt, það eru allir aðrir að tjá sig. Ég er mjög hrifinn af því, hann er niðri á jörðinni. Hann vill bara vinna og hann fagnar ekki góðum leikjum sínum nema liðið vinni,“ sagði LeBron sem hélt svo áfram. 

„Ég sé sjálfan mig í Ball, auðvitað geri ég það. Þegar þú ert valinn í nýtt félag er búist við að þú sért bjargvættur, en þetta tekur allt tíma. Hann er rétt búinn að spila 20 leiki. Hann er virkilega góður og liðsfélagar hans eru hrifnir af því að spila með honum. Hann mun verða mikið betri,“ sagði LeBron James að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert