Endurtekur sagan sig 30 árum síðar?

Kári Jónsson kom aftur í Hauka.
Kári Jónsson kom aftur í Hauka. mbl.is/Styrmir Kári

„Mér finnst við betra lið núna en þegar við fórum í úrslitin 2016. Við vorum með marga unga leikmenn þá sem eru orðnir betri núna. Okkar markmið er bara titill,“ segir Emil Barja, leikmaður körfuboltaliðs Hauka, en Haukamenn tróna á toppi Dominos-deildarinnar fyrir leiki kvöldsins þegar síðasta umferðin fyrir jólafrí fer fram.

Haukar endurheimtu landsliðsmanninn Kára Jónsson óvænt í október, eftir eitt ár í Bandaríkjunum, og endurkoma þessa unga bakvarðar virðist hafa breytt góðu liði hreinlega í meistarakandídata í vetur. Í vor verða einmitt þrjátíu ár liðin frá því að Haukar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta og eina sinn.

„Ef að við eyðum síðasta vetri út þá er það bara næsta rökrétta skref hjá okkur að landa titlinum. Það hefur gengið frábærlega í vetur, eftir að Kári kom aftur og við fengum nýjan útlending. Ég er mjög ánægður með þetta. Við höfum unnið fullt af erfiðum leikjum, og það sem er líka svo gott við liðið er að ef einhver á slæman leik þá tekur bara einhver annar við. Við erum með svo marga góða, og í flestum leikjum þá dreifist stigaskorið svo vel. Þetta er bara magnað, og sést kannski ekki oft á Íslandi,“ segir Emil, sem líkt og flestir í Haukaliðinu er uppalinn á Ásvöllum og hefur leikið með liðinu allan sinn feril.

„Við erum langflestir bara strákar sem hafa verið að æfa körfubolta saman upp yngri flokkana hérna í Haukum. Breki [Gylfason] og Finnur Atli [Magnússon] hafa bæst við, auk Kanans auðvitað, en þeir smellpassa allir inn í liðið. Við erum einhvern veginn allir á sömu bylgjulengd, og það er mjög gott að spila með þessu liði,“ segir Emil.

Ítarleg umfjöllun um körfuknattleikslið Hauka má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert