Martin með stórleik gegn toppliðinu

Martin Hermannsson er að spila gríðarlega vel.
Martin Hermannsson er að spila gríðarlega vel. mbl.is/Árni Sæberg

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, var í stuði fyrir Chalons-Reims sem fékk heimsókn Le Mans í A-deild Frakklands í körfubolta í kvöld. Martin skoraði 20 stig og var stigahæstur í sínu liði. Það dugði ekki til því Le Mans vann nauman 76:75-sigur og kom sigurkarfan í blálokin. Fyrir vikið komst Le Mans í toppsæti deildarinnar. 

Svo virtist sem Chalons-Reims hafði tryggt sér sigurinn í blálokin með þriggja stiga körfu Romain Duport, fjórum sekúndum fyrir leikslok. Justin Cobbs skoraði hins vegar sigurkörfuna í þann mund sem leiktíminn rann út. 

Chalons-Reims er í 14. sæti deildarinnar með 20 stig, sex stigum fyrir ofan fallsæti og tveimur stigum frá 8. sæti, sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert