Ekki eitthvað sýningarlið fyrir Haukana

Hörður Axel Vilhjálmsson á Ásvöllum í kvöld.
Hörður Axel Vilhjálmsson á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var hrikalega mikilvægt fyrir okkur að vinna þennan leik, annars værum við bara komnir í sumarfrí,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmaður Keflavíkur, eftir 81:78-sigur á Haukum í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik.

Keflvíkingar mættu á Ásvelli í kvöld til að berjast fyrir lífi sínu eftir að hafa tapað fyrstu tveim leikjum rimmunnar og, eins og gaf að skilja, var hart barist á gólfinu.

„Það var þannig bragur á þessum leik á köflum, sérstaklega í byrjun seinni. Ég veit ekki hversu oft við köstuðum frá okkur boltanum en sem betur fer voru þeir að gera það líka. Samt erum við undir í lokin og ég er stoltur af því að hafa haldið dampi og haldið áfram, þetta er eitthvað til að byggja á.“

Haukar unnu í Keflavík í síðasta leik á ævintýralegan hátt og segir Hörður að það hafi sýnt andlegan styrk liðsins að heimsækja Haukana í kvöld og ná fram hefndum.

„Algjörlega, en að sama skapi fannst okkur við vera þar með unninn leik þar sem við töpum sjálfir. Þó að Kári hafi sett alveg ótrúlegt skot og allt það, en það er ekkert við því að gera. Við vitum fyrir hvað við stöndum og við getum keppt við hvern sem er. Þetta er spurning um að spila vel í 40 mínútur, við vorum svakalega góðir í 30 mínútur í Keflavík.“

Það hitnaði aðeins í kolunum á lokamínútunum þegar spennan var mikil en Haukar voru oft ósáttir út í dómgæsluna og fannst Keflvíkingar aðeins of harðir í horn að taka. Hörður gaf ansi lítið fyrir slíkar pælingar.

„Svona er úrslitakeppnin, svona hefur hún alltaf verið og menn verða að geta tekið því. Við spilum fast og vitum það en þeir spila líka fast og hljóta að vita það líka. Ef þeir eru fastir fyrir varnarlega þá hljótum við að mega vera það líka. Ekki höfum við verið að væla, nema kannski í fyrsta leiknum og þess vegna fór sá leikur eins og hann fór, við vorum að einbeita okkur að vitlausum hlutum.“

„Okkur er slétt sama þó aðrir halda að við séum eitthvað sýningarlið fyrir Haukana, þeir eru með frábært lið en við erum með það líka,“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert