Arnór genginn í raðir Breiðabliks

Arnór Hermannsson handsalar samninginn við Sigríði H. Kristjánsdóttur, formann körfuknattleiksdeildar …
Arnór Hermannsson handsalar samninginn við Sigríði H. Kristjánsdóttur, formann körfuknattleiksdeildar Breiðabliks. Ljósmynd/Breiðablik

Karlalið Breiðabliks í körfuknattleik, sem vann sér sæti í úrvalsdeildinni í vor, heldur áfram að safna liði fyrir átökin á næstu leiktíð.

Arnór Hermannsson hefur samið við Breiðablik um að leika með liðinu á komandi leiktíð. Arnór er tvítugur að aldri og kemur til Breiðabliks frá KR, sem hann hefur leikið með allan sinn feril. Arnór hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands.

Arnór hefur hæfileikana ekki langt að sækja. Faðir hans er Hermann Hauksson, fyrrverandi leikmaður KR og landsliðsins, og eldri bróðir hans er Martin Hermannsson sem er einn albesti körfuknattleiksmaður landsliðsins og er lykilmaður í íslenska landsliðinu. Hann er annar ungi leikmaðurinn sem Blikar fá til liðs við sig en Hilmar Pétursson gekk í raðir Kópavogsliðsins frá Haukum í gær.

„Ég er ánægður með að fá Arnór til okkar. Hann góður leikmaður sem hefði getað valið sér mörg lið. Hann hefur nú þegar sýnt sig í efstu deild og kemur til með að hjálpa liðinu með festu í varnaleiknum og auknu hugmyndaflæði í sókn,“ segir Pétur Ingvarsson, nýráðinn þjálfari Breiðabliks, á vef félagsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert